STEFNUMÓT

ERPSSTAÐIR MÖÐRUDALUR HALI LANGAMÝRI

Rannsóknarverkefni

Rannsóknar- verkefnið byggðist á þverfaglegri samvinnu

Rannsóknarverkefnið var þriggja mánaða ferli sem endurtekið var þrisvar sinnum á tímabilinu 2008–2011. Hugmyndir úr námskeiðinu voru valdar inn í rannsóknarverkefnið með það að markmiði að afhenda bændunum fullþróaða vöru sem tilbúin er til framleiðslu í lok verkefnisins. Rannsóknarverkefnið byggðist á þverfaglegri samvinnu þar sem hönnunarteymið og býlið vinna með sérfræðingum Matís, matreiðslumeisturum og Innovit. Í ferlinu er mikið lagt upp úr því að skapa vörunni sterka sérstöðu og heildarupplifun. Þær afurðir sem hafa verið þróaðar í rannsóknarhlutanum eru Rabarbarakaramella Rabarbíu (Langamýri á Skeiðum), Sláturtertan fyrir Möðrudal á Fjöllum, Skyrkonfekt Rjómabúsins á Erpsstöðum og Rúgbrauðsrúlluterta og snúðar fyrir Þórbergssetrið á Hala í Suðursveit. Hönnunarstjórar Rannsóknarverkefnisins voru Brynhildur Pálsdóttir og Guðfinna Mjöll Magnúsdóttir. Verkefnisstjóri og ábyrgðarmaður var Sigríður Sigurjónsdóttir, prófessor í vöruhönnun.

Námskeið

markmið verkefnisins var að þróa afurðir sem gátu skapað efnahagslegan ávinning fyrir býlin

Í námskeiðinu, sem stóð í sex vikur, er nemendum í vöruhönnun boðið á stefnumót við bændasamfélagið í þeim tilgangi að skapa einstakar héraðsbundnar vörur með menningarlega skírskotun. Nemendum var parað saman við bændur og var markmið verkefnisins að þróa afurðir sem gátu skapað efnahagslegan ávinning fyrir bændurna með því að auka verðgildi hráefnis sem þeir framleiða. Mikilvægt er að nemendur kynni sér vel starfsemi, hráefni og afurðir bóndans til að geta áttað sig á möguleikunum. Í samtali við kennara er grisjað úr fjölda hugmynda þar til ein stendur eftir. Í framhaldinu nota þeir aðferðafræði hönnunar til að setja fram tillögur að vöruþróun með það að markmiði að auka verðgildi, eftirspurn og upplifun á hráefni bóndans. Námskeiðið er blanda af fyrirlestrum, heimsóknum og vinnu í vinnustofu. Í lok námskeiðsins kynna nemendur ferli og niðurstöður með vandaðri frumgerð vörunnar. Býlin sem tóku þátt í námskeiðinu voru valin í samvinnu við Bændasamtök Íslands og samtökin Beint frá býli. Alls tóku 30 nemendur þátt og 11 býli víðs vegar af landinu. Brynhildur Pálsdóttir og Guðfinna Mjöll Magnúsdóttir voru umsjónarkennarar námskeiðsins en ýmsir komu við sögu og má þá helst nefna Kristján Björn Þórðarson myndlistarmann, Sigríði Sigurjónsdóttur prófessor í vöruhönnun, Friðrik V. Karlsson matreiðslumeistara og Brent Richards, Central Saint Martins.