VIÐTAL

á tímabili vorum við algerlega dottnar inn í hugarástand Þórbergs sem var mikið ævintýri
það var kallað „gott strand“ ef enginn dó
í framhaldinu hef ég unnið að þrem verkefnum með bændum þar sem að þessi reynsla hefur nýst mér vel

ÞÓRBERGUR OG SÉRVISKULJÓMINN

Eftir Súsönnu Gestsdóttur

 

ÞÓRBERGUR OG SÉRVISKULJÓMINN

Eftir Súsönnu Gestsdóttur

 

Auður Ösp Guðmundsdóttir útskrifaðist sem vöruhönnuður frá LHÍ vorið 2010. Eftir útskrift tók hún þátt í vöruþróun á Hala í Suðursveit sem var hluti af verkefninu Stefnumót hönnuða og bænda. Það hefur margt runnið til sjávar síðan þá en Auður tók meðal annars þátt í sams konar verkefni í Vallanesi á Fljótsdalshéraði sem gekk undir nafninu Pantið áhrifin. Verkefnið hlaut Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands í fyrra. Síðan þá hefur hún unnið sjálfstætt að þremur mismunandi verkefnum með bændum víðs vegar um landið. Súsanna Gestsdóttir hitti Auði á vinnustofu hennar á Skipholtinu á blíðviðrisdegi í febrúar og spurði hana spjörunum úr.

„Við Halla Kristín Hannesdóttir og Steinþór Hannes Gissurarson fengum sem sagt úthlutað bænum Hala í Suðursveit í námskeiðishlutanum í skólanum. Þar búa hjónin Þorbjörg Arnórsdóttir og Fjölnir Torfason en Fjölnir er skyldmenni Þórbergs Þórðarsonar. Þau reka Þórbergssetur sem er í senn safn og veitingastaður en einnig reka þau gistiheimili. Á Hala er stundað bleikjueldi og sauðfjárrækt. Sauðfé er á beit á Steinafjalli sem gnæfir yfir bæinn. Hjónin rækta sitt eigið grænmeti í görðum vestan við bæinn. Við höfðum um svo mikið að velja við ákváðum að einskorða okkur við veitingastaðinn og hanna einhverja vöru til þess að hafa á boðstólnum þar.“ Verkefnið skiptist annars vegar í 6 vikna námskeiðishluta sem fór fram innan veggja LHÍ en þar kviknaði hugmyndin að verkefninu. Verkefnið var svo tekið lengra í svokölluðum rannsóknarhluta þess en þá sinntu Auður og Halla Kristín starfsnámi í þrjá mánuði. „Við sökktum okkur í Þórberg Þórðarson sem var ótrúlega skemmtileg persóna og einstaklega sérvitur. Hann vissi til dæmis hvað það voru mörg skref að öllum útihúsunum á bænum. Þetta var talin vera frekar undarleg hegðun í þá daga,að vera alltaf að stika allt, svo Þórbergur vandi sig á að mæla í myrkri þegar enginn sá til hans. Sem drengur notaði hann líkamann sem viðmið og studdist við þumal, skref og fet og þess konar. Þegar hann varð eldri gekk hann með fjöldan allan af mælum á sér, loftþrýstingsmæli, hitamæli, rakamæli og áttavita svo nokkuð sé til talið. Einnig skráði hann ötullega niður mælingar sínar í dagbækur sem nú eru varðveittar á þjóðarbókhlöðunni. Þórbergur var ekki bara innblástur, hann varð í rauninni að verkefninu.“

Það liggur beinast við að spyrja hvort að Auður hafi þekkt til verka Þórbergs áður en hún hófst handa við verkefnið? „Nei, ég hafði ekki lesið Þórberg en var alltaf á leiðinni. En svo byrjuðum við Halla Kristín að lesa og urðum hugfangnar, hann hefur hæfileika til þess að raða einföldum orðum án alls prjáls, upp í stórkostlegar setningar sem maður getur ekki annað en stoppað við og lesið aftur og aftur. Við köfuðum inn í persónu hans en á síðustu árum hafa komið út ótrúlega flottar bækur um Þórberg sjálfan. Sögurnar af honum eru svo skemmtilegar að við duttum algerlega inn í hans hugarástand sem var mikið ævintýri.“

Himnaríki í kviðnum

Hópurinn ákvað að styðjast við sérviskulega orðanotkun Þórbergs eins og „innblástursglóð“, og „himnaríki í kviðnum“. Auður stekkur í burtu og kemur jafnskjótt tilbaka með bók í hendi. „Þessi samheitaorðabók var gefin út af Styrktarsjóði Þórbergs Þórðarsonar og Margrétar Jónsdóttur, konu hans, árið 1985. Þórbergur var alla ævi að safna orðum en sjóðurinn hafði það meðal annars að markmiði að gefa út samheitaorðabók en hún hafði ekki verið til áður. Við bjuggum til orðið „sérviskuljómi“ því okkur fannst það lýsa Þórbergi og þeirri tilfinningu sem við vildum ná fram. Orðið sérviska eitt og sér er einhvern veginn dálítið neikvætt en af sérvisku hans stafaði ótrúlega skemmtilegur ljómi sem hafði áhrif á okkur. Mig minnir að orðið innblástursglóð sé orð sem hann fann upp sjálfur yfir „inspiration“ eða innblástur. Himnaríki í kviðnum kemur einnig úr smiðju Þórbergs.“

Auður vill meina að Hali sé svolítið sérstakur staður en sveitin hefur alltaf verið mjög einangruð: „Á aðra hönd er sjórinn og útsýnibeint út á haf. Á hina rís fjallið fyrir ofan bæinn og yfir þessu öllu saman gnæfir jökullinn. Þetta er ótrúlega magnað umhverfi. Þorbjörg og Fjölnir eru líka virkilega skemmtileg. Forfeðurnir eiga sér fastan sess í heimsmynd þeirra hjóna. Þeir eru eins og góðir vinir sem koma reglulega upp í samræðum jafnvel þó að öld sé síðan sumir þeirra féllu frá. Þorbjörg fór með okkur í kvöldgöngu í eitt skiptið þar sem við gengum um í niðamyrkri og skoðuðum allt svæðið og heyrðum sögur af hólum og hæðum. Þarna ríkir mikil sagnahefð.“ Fyrr á öldum var algengt að bátar strönduðu á þessu svæði en það var mikil búbót fyrir fólkið sem bjó þarna. „Það var kallað „gott strand“ ef enginn dó. Það birti yfir fólki þegar það sá báta úti fyrir strönd en það vonaðist auðvitað eftir „góðu strandi“. Þá kom oft eitthvað spennandi upp úr krafsinu, koníak eða alvöru brauð. En auðvitað var þetta bara einhver sjómannamatur, eitthvað sem var í rauninni ekki mikið varið í en hér þótt þetta vera mikill fjársjóður“ segir Auður og kímir.

Rigningarsumarið mikla

Í rannsóknarhlutanum tók hópurinn aðra stefnu en hafði verið tekin í námskeiðishlutanum. Þá hafði máltíðin verið útbúin með það að leiðarljósi að fólk gæti mælt allt sem það lagði sér til munns. „Við skiptum til dæmis öllum diskunum upp í tólf parta og glösunum sömuleiðis þannig að hægt væri að mæla en svo tók verkefnið óvænta stefnu.“ Í Ofvitanum er að finna kaflann Rigningarsumarið mikla þar sem Þórbergur var við það að svelta í hel. Hann hafði fengið vinnu við að mála en allt sumarið rigndi eins og hellt væri úr fötu þannig að það gafst aldrei tækifæri til þess að mála. Hann lagði af stað á hverjum morgni, sársvangur, en aldrei var málningarveður. Þegar hljóp á snærið hjá honum og hann gat slegið sér lán fór hann rakleiðis og keypti sér mjólkurglas og snúð. „Af öllu sem stóð til boða var það snúðurinn og mjólkurglasið sem togaði mest í hann. Þetta fannst okkur svo ótrúlega falleg saga að við ákváðum að velja þetta góðgæti, snúðana til að vinna með og  bjóða gestum uppá eftirlæti Þórbergs.“

Þórbergur var meðal þeirra fyrstu á Íslandi til þess að stunda jóga. Hann ferðaðist til Kína, stundaði Möllersæfingar niðri við sjó og skokkaði í fánýtum leðurskóm. „Hann var ótrúlega opinhuga en á sama tíma hafði sveitin mikil tök á honum og mikil nostalgía einkenndi hann þar sem hið gamla, góða og hefðbundna réði ríkjum. Við ákváðum að halda okkur við þá hugsun og einblína á hefðbundinn íslenskan mat sem búinn er til úr hráefninu sem kemur af bænum þannig að allt er algjörlega rekjanlegt.“

Í námskeiðishlutanum bjó hópurinn til tvo þarfapýramída í tengslum við verkefnið, annan um Þórberg og hinn um býlið sjálft. Þar var að finna orð eins og „ættslóð“, „sagnahefð“, „leikgleði“, „sérviskuljómi“ og fleira. Daginn sem yfirferðin fór fram var mjög dimmt yfir. „Við erum að kynna verkefnið þegar lítill sólargeisli brýtur sér leið inn um gluggann og lýsir upp orðið sérviskuljómi í pýramýdanum. Við tókum öll andköf og leið eins og að andi Þórbergs væri með okkur”.

Rúllutertur og snúðar

Afurðir Hala-verkefnisins eru rúgbrauðsrúllutertur, annars vegar með kæfufyllingu og hins vegar með bleikjufyllingu. Með þeim er borin fram rauðrófusósa eða appelsínu og gulrótasósa. „Rúgbrauðsrúlluterturnar eru bornar fram kaldar. Til að endurspegla mælingarástríðu Þórbergs var hannaður sérstakur höggstokkur en þar eru rúlluterturnar skornar í nákvæmlega þriggja sentímetra þykkar sneiðar. Snúðarnir eru settir í þar til gerða brottnámspoka en á pokann er skrifað hversu marga sentimetra þú færð af snúðnum. Ef þú ert með einn snúð þá ertu með 90 cm en ef þú ert með þrjá snúða þá ertu með 270 cm af snúðnum. Við smíðuðum einnig snúðakassa sem er eins konar sýningarkassi utan um snúðana sem stendur á afgreiðsluborðinu.“ Ég spyr Auði með hvorri rúllutertunni hún mælir. Hún hlær við og svarar: „Rúllutertan með bleikjufyllingunni er mjög ljúffeng.“ Ég spyr Auði hvort að orðið „brottnámspoki“ sé úr smiðju Þórbergs en hún svarar um hæl að brottnámspokinn sé einfaldlega besta íslenska þýðingin yfir  orðið „take away-poki.“

Í rannsóknarhlutanum var um að ræða samstarfsverkefni milli Stefnumóts hönnuða og bænda og Irek Klonowski hjá Matís, Örvari Birgissyni konditorimeistara og Kjartans Gíslasonar matreiðslumanns. Auður og Halla Kristín unnu náið með Brynhildi Pálsdóttur og Guðfinnu Mjöll Magnúsdóttur sem hafa á undanförnum árum skapað vettvang til samstarfs hönnuða og bænda og verið í forsvari fyrir þróun þessa verkefnis. Þær sinntu hlutverki hönnunarstjóra í rannsóknarhlutanum.

Auður segir að  hönnunarteymið hafi verið samstíga og að samvinnan hafi gengið vonum framar. „Maður er þakklátur fyrir að fá að vinna með einhverjum sem býr yfir reynslu af svona verkefnum. Sumarið eftir að ég lauk við þetta verkefni þá fór ég að vinna að sambærilegu verkefni í Vallanesi og í framhaldinu hef ég unnið að þrem verkefnum með bændum þar sem að þessi reynsla hefur nýst mér vel. Ég hef haldið mig við þarfapýramídana til þess að ákvarða hvað verkefnið stendur fyrir. Einnig met ég alltaf styrkleika og veikleika hvers verkefnis til þess að sjá fram á möguleika framundan og hættur sem ber að varast. Bæði í gegnum námið og eftir samstarf eins og rannsóknarferli stefnumótsins eru einhverjir hlutir sem maður tileinkar sér. Þannig skapar maður sína eigin tækni. Mismunandi hlutir henta ólíkum hönnuðum en með því að kynnast hvernig aðrir vinna bætir maður við sinn eigin forða. Þess vegna var mjög gott að skóla loknum að fá að hanna fyrir raunverulegan kúnna með hönnuðum sem hafa reynslu.“

Vitundarvakning á landsbyggðinni

Ég spyr Auði hvernig hún sjái fyrir sér þróunina í kjölfarið á rannsóknarverkefninu: „Verkefnið hefur haft mikil áhrif nú þegar og leitt til mjög jákvæðra breytinga. Með því að fara í samstarf við  hönnuð eykst verðgildi vörunnar í framhaldinu. Þess konar fjárfesting er því fljót að borga sig upp. Ég myndi segja að verkefnið Stefnumót Hönnuða og Bænda sé að smita út frá sér og um mikla vitundarvakningu sé að ræða. Þau verkefni sem urðu til í LHÍ en voru ekki valin til áframhaldandi vinnslu fyrir tilstuðlan skólans hafa flest verið unnin áfram þar sem að nemendur hafa einfaldlega sótt um styrki á eigin vegum”.

Eftir alla þessa vinnu og beinlínis út frá henni hefur Auður verið að fá verkefni af sama toga inn á borðið. „Um þessar mundir er ég að vinna að verkefni fyrir Austurland, ég veit samt ekki hvað ég má gefa mikið upp“ segir Auður og brosir kankvíslega. „Einnig unnum við Embla Vigfúsdóttir skemmtilegt verkefni með mjólkurbændunum Guðbjörgu og Gauta á Læk í Flóanum. Finna og Brynhildur hafa verið ötular í fyrirlestrahaldi um allt land varðandi Stefnumót Hönnuða og Bænda. Þær hafa hvatt bændur til þess að fá hönnuð inn í ferlið strax í upphafi svo hægt sé að byggja á sterkum grunni með heildrænni framíðarsýn. Hjónin að Læk settu sig í samband við Brynhildi eftir að hafa setið síkan fyrirlestur og því viss forréttindi að vinna fyrir bændur sem vita nákvæmlega hvernig svona verkefni ganga fyrir sig. Við hönnuðum sunnlenska bændaverslun fyrir Guðbjörgu og Gauta ásamt því að hanna fyrir þau ís úr mjólkinni frá Læk. Ísinn verður kynntur formlega á HönnunarMars 2012, bragðtegundirnar hafa sterka vísun í íslenska matarhefð, menningu og náttúru, en fyrsta bragðið er grjónagrautsís með kanelkeim”.

Það má með sanni segja að Auður sé að vinna að spennandi og krefjandi verkefnum sem gaman verður að fylgjast með í framtíðinni. Að ferðast um landið hefur aldrei verið jafnspennandi og nú og um að gera að leggja í hann á fastandi maga svo hægt sé að upplifa himnaríkið í maganum.