GREIN

það er ekki sjálfgefið að búskapurinn standi einn undir heimilis- rekstrinum
Sú þekking sem byggðist upp í stefnumóti hönnuða og bænda mun án efa gagnast vel þeim sem koma í kjölfarið
Við megum ekki stytta okkur leið með því að setja vöru á markað sem er ekki tilbúin

STEFNUMÓT SEM RUDDI BRAUTINA

Tjörvi Bjarnason, sviðsstjóri hjá Bændasamtökunum

 

Stefnumót eru í eðli sínu sveipuð dulúð. Þeir sem halda á stefnumót eru oft spenntir, með miklar væntingar eða jafnvel feimnir og vandræðalegir. En stundum smellur allt saman og þá getur komist á áralangt samband. Fyrir nokkrum árum fréttist af framúrstefnulegum hönnuðum úr Listaháskóla Íslands sem óskuðu eftir því að eiga stefnumót við bændur. Þeim hafði með útsjónarsemi tekist að fjármagna verkefni sem skyldi miða að því að hanna nýjar matvörur með bændum. Til að gera langa sögu stutta tókst að koma nokkrum góðum hugmyndum í framkvæmd. Þær skapa nú bændum ágætis tekjur og vaxtarmöguleikar eru fyrir hendi. Það er búið að ryðja brautina og gefa gott fordæmi. Bændum og hönnuðum er ekkert að vanbúnaði að halda áfram.Bændur hafa áhuga

Íslenskur landbúnaður er margbrotinn og atvinnustarfsemi til sveita er fjölbreytt þegar hún er skoðuð ofan í kjölinn. Bændur starfa mikið utan bús og ekki er sjálfgefið að búskapurinn standi einn undir heimilisrekstrinum. Á síðustu árum hafa æ fleiri bændur gefið því gaum að fullvinna afurðir heima á býlinu með það fyrir augum að skapa sér aukna vinnu og meiri framlegð af rekstrinum. En það er ekki einfalt mál að framleiða nýjar söluvörur úr búvörum. Það þarf ótalmargt að koma til, kjarkur, þor og þekking. Þá er gott að geta leitað ráðgjafar og lært af þeim sem hafa sérþekkingu og reynslu.Frumkvöðlastarf er ekki alltaf dans á rósum. Það þarf að búa til viðskiptaáætlanir, útvega fjármagn, skila vsk-skýrslum og ársreikningum og gera endalausar tilraunir í vöruþróun. Sammerkt er með þessu öllu að tímakaupið er lágt en eftirtekjan getur verið góð ef vel tekst til.

Það tekur tíma að hanna nýja vöru og koma á markað. Langur vegur er frá því að hugmyndin kviknar og afurðin er komin á borð neytenda.
Peningar, móralskur stuðningur og aðstoð er nauðsynleg til þess að gera hugmyndir að veruleika. Í upphafi þarf að gera sér grein fyrir því hvort varan eigi möguleika og gera raunhæfar áætlanir. En hvað er sérstakt við innlendar búvörur og hafa íslenskir bændur eitthvað nýtt fram að færa? Það er margra mat sem starfa innan landbúnaðarins að sérstaðan sé það sem mun fleyta íslenskum landbúnaði inn í nýja tíma. Við keppum aldrei við nágrannaþjóðir okkar í fjöldaframleiðslu á einsleitum vörum sem aðrar þjóðir geta framleitt.Hvaða leið er framundan?


Það er mikill meðbyr með bændum sem hyggjast framleiða sjálfir heima á sínum búum og þróa nýjar vörur eða þjónustu. Á annað hundrað bú eru meðlimir í félaginu “Beint frá býli” og þar er verðmætur mannauður sem hefur áhuga á að taka til hendinni. Sú þekking sem byggðist upp í stefnumóti hönnuða og bænda mun án efa gagnast vel þeim sem koma í kjölfarið. Nú eru til vörur eins og skyrkonfekt, rabarbarakaramella eða sláturterta sem eru ljóslifandi dæmi um vel heppnaða vöruþróun. Að auki hefur samstarf bænda og annarra sérfræðinga aukist síðustu ár. Þar má nefna Matís sem hefur staðið myndarlega að uppbyggingu þróunarsetra víða um land. Þá hafa veitingamenn, kaupmenn, bakarameistarar og kjötiðnaðarmenn verið í auknu samstarfi við bændur, bæði við vöruþróun og í viðskiptum.
 
Fjármögnun nýrra verkefna er ekki sjálfgefin. Það er nauðsynlegt fyrir landbúnaðinn að hafa aðgang að sjóðum til jafns við aðrar atvinnugreinar þar sem hægt er að sækja stuðning til atvinnusköpunar. Framleiðnisjóður landbúnaðarins hefur á síðustu misserum dregist mikið saman en vonandi eflist hann á nýjan leik þegar betur árar í efnahagslífinu. Það má vel hugsa sér að nýsköpun til sveita og vöruþróun falli að einhverju leyti inn í þá samninga sem ríkið gerir við bændur í framtíðinni um matvælaframleiðslu. Eins er áríðandi að bændur leiti sér menntunar á því sviði sem þeir hyggjast starfa á, hvort sem það er endurmenntun, stutt námskeið eða háskólanám.Góðar hugmyndir eru gulls ígildi


Bændur og aðrir smáframleiðendur þurfa fyrst og fremst að fá góðar hugmyndir, hafa tímann fyrir sér og vera þolinmóðir. Fagmennska á öllum stigum skiptir afar miklu máli. Við megum ekki stytta okkur leið með því að setja vöru á markað sem er ekki tilbúin. Ekki prenta límmiða á heimilisprentaranum eða kasta til höndunum við að velja umbúðir. Bændur verða líka að velja hverjir selja vörurnar. Sérhæfing er mikilvæg, það geta ekki allir verið góðir í öllu. Einbeitum okkur að því sem við erum góð í og reynum að gera enn betur.


NiðurlagÞað enda ekki öll stefnumót með hjónabandi. En sum gera það og þegar vel tekst til geta hjónabönd lifað í tugi ára og skilað ávöxtum. Vörurnar sem fæddust í samstarfi hönnuða og bænda hafa sumar slegið í gegn og aukið fjölbreytni á íslenskum matvælamarkaði. Nýjar vörur eða ný þjónusta á vegum íslenskra bænda getur orðið mikil lyftistöng fyrir hagkerfi sveitanna. Fordæmið er fyrir hendi – nú er að halda ótrauð áfram á sömu braut. Íslenskir bændur eiga nógan efnivið og tækifærin eru mýmörg.