GREIN

þöndu út landamæri hugans, stækkuðu hugmyndina um hvað hægt væri að búa til og hvað hægt væri að gera
Blindan getur verið gríðarleg, en þarna er dæmi um svið þar sem allt ætti að vera fyrir hendi; peningur, hráefni, þekking

AÐ HRÆRA Í POTTUNUM

Andri Snær Magnason

 

Einu sinni var maður í baði. Þetta var ekki feitur maður og baðið var ekki sérlega stórt og það voru ekki bara tveir stútar sem runnu í baðið heldur fjórir og það af ansi miklum krafti. Og maðurinn hugsaði sér gott til glóðarinnar, hann var með sápu til að gera sér froðubað og kerti vegna þess að hann ætlaði að hafa það virkilega notalegt. En nú bar svo við að þótt vatnið fossaði í baðið þá vatnaði aldrei yfir bumbuna hans auk þess sem vatnið varð aldrei nægilega heitt. Maðurinn lá því þarna á botni baðkarsins, skalf og bar sig aumlega og lét renna úr enn einum stút en aldrei fylltist baðið og alltaf var honum jafn kalt. Nú getum við velt fyrir okkur - hver væri líklegur vandi? Að bæta við enn einum stút eða athuga hvort það væri yfirleitt tappi í baðinu, eða hreinlega stórt gat á botninum. 

Einhverntíma sagði ég útlenskum blaðamanni sem hringdi í mig þessa sögu. Hann hafði spurt hvað Íslendingar ætluðu nú að gera í ,,kjölfar kreppunnar". Hann spurði hvort það ætti þá ekki að virkja fleiri vatnsföll, byggja fleiri álver eða veiða meiri fisk og ég sagði honum einfaldlega að það væri ekki rétt. Íslendingar veiða nú þegar um 2% af öllum fiski sem kemur á land í heiminum. Þeir bræða um 3% af öllu áli sem er brætt í heiminum, þeir fá til sín fleiri ferðamenn á mann heldur en flestir staðir í heiminum og mest allt kjöt, mjólkurvörur og grænmeti eru innlend framleiðsla, jafnvel offramleiðsla og þeir hafa þegar tekið erlend lán til að byggja fimm sinnum meiri orkuinnviði heldur en þjóðin sjálf þarfnast. Ef 300.000 manna samfélag telur sig ekki geta lifað mannsæmandi lífi með þessar auðlindir - þá er eins gott að gefast upp og viðurkenna að jörðin sé óbyggileg.

Þetta hljómar kannski fáránlega en staðreyndin er sú að hér á landi má finna hnignandi staði - sem eru staðsettir steinsnar frá stóru orkuveri, álveri, mjólkurbúi, sauðfjárbúi, hitaveitu, fengsælum fiskimiðum, hreinu köldu vatni og mikilli náttúrufegurð. Hvernig getur slíkur staður verið í vörn?

Það var athyglisvert að sjá hvað kom út úr stefnumóti hönnuða og bænda - að sjá skólaverkefni 30 nema og 11 býla skila af sér bæði raunverulegum vörum og raunverulegri framleiðslu en líka hugmyndum sem komu ekki til framkvæmda en þöndu út landamæri hugans, stækkuðu hugmyndina um hvað hægt væri að búa til og hvað hægt væri að gera og hvað mætti hugsa. Og ef maður skoðar síðan hversu margir bæir eru á landinu - um 6000 lögbýli - þá er auðvelt að taka upp reiknivélina og framreikna, jafnvel blása upp heila bólu í huganum og skapa tug ef ekki hundruð starfa. Og kannski var mikilvægast að sjá samspil klisjanna - landsbyggðarinnar og ímyndar hins lattelepjandi 101 Reykjavík geta af sér svona fínan afrakstur.

Með vel heppnað stefnumót nokkurra hönnunarnema og örfárra bænda má velta fyrir sér. Hversu mörg falleg afkvæmi hafa ekki orðið til á undanförnum árum vegna þess að enginn hefur druslast til að koma fólki á stefnumót í fleiri greinum, á fleiri stöðum víða um land og í höfuðborginni sjálfri?

Ég man þegar einn vinur minn var að fárast yfir atvinnuástandinu á Austurlandi. Ég var með þetta mál á heilanum spurði hann hvort ekki væru neinir möguleikar aðrir en að rústa hálendinu? Hann kvað svo ekki vera. Og þá spurði ég hann um loðnuhrogn. Hvað verður um öll þessi loðnuhrogn? Hann var ekki viss, þeim var skóflað upp og svo skipað út í bláum tunnum. Og ég spurði - hefurðu smakkað þau?- Nei reyndar ekki. En hvernig eru þau étin? Ég veit það ekki sagði hann. Hver étur þau? Einhver í Evrópu - eða japan? Hann var ekki viss. Er þetta lúxusmatur, hundamatur, veislumatur, hversdagsmatur? Ég veit það ekki sagði hann. Er þetta étið um páska eða jól? Hvað heita vörumerkin? Í hvaða búðum fæst þetta? Ég veit það ekki sagði hann. Þessi vinur minn var alls ekki vitlaus eða óupplýstur og hann kunni að njóta náttúrunnar, veiða silung, hreindýr, rjúpu og þorsk. Þau voru ótengd allri menningu þorpsins og þaðan voru engin tengsl við endanlega neytendur og engin vitund um vörumerkið og enginn rekjanleiki frá vörumerkinu aftur til þorpsins eða Íslands yfirleitt. Hrognin höfðu engan snertiflöt við matarmenningu heimamanna og ekkert smáfyrirtæki eða veitingastaður tók svo mikið sem fötu og skapaði eitthvað annað úr hráefninu sem Íslendingar hefðu kannski haft áhuga á. En þessi hugsun mín spratt af deilum við mann sem taldi sig þurfa annan stút til að fylla baðkarið sitt á Austurlandi. Grandi - fyrirtæki í 101 Reykjavík var búið að frysta 2500 tonn í mars - núna á þessu ári. Heildarútflutningur 15.000 tonn og verðmætin um 6 milljarðar. Ég veit nánast ekkert um loðnuhrogn og ef ég hef smakkað þá þá veit ég ekki af því. En ég velti fyrir mér - miðað við hvað kom margt skemmtilegt upp úr einum rabarbaragarði - rabarbarakaramellan meðal annars - hvaða hugmyndir gætu leynst í 15.000 tonnum af loðnuhrognum? Ég verð að þýða þessi 15.000 tonn á mannamál. Það eru 15 milljón kíló. Það eru 150 milljón 100 gramma einingar. Blindan getur verið gríðarleg - en þarna er dæmi um svið þar sem allt ætti að vera fyrir hendi, peningur, hráefni, þekking - en einhverra hluta vegna hefur maður ekki á tilfinningunni að tækifærin séu nýtt til fulls. Þarna væri gaman að sjá næsta stefnumót.

En þetta voru bara hrognin. Ég man nefnilega þegar deilurnar um hálendi Austurlands stóð sem hæst þá birtist mynd í Morgunblaðinu. Myndin sýndi strák í bláum vinnugalla sem sat ofan á einhverjum ótilgreindum sekkjum fyrir framan ótilgreinda skemmu. Myndatextinn var á þá leið að þessi strákur endurspeglaði vel það vonleysi sem ríkti á staðnum. Það fylgdi ekki fréttinni að undir rassgatinu á þessum strák, sem var einmitt í vinnugalla var bókstaflega hálf loðnuvertíð. Hann sat ofan á hundruðum tonna af loðnumjöli í sekkjum, samtals meiri verðmætum heldur en finnast í peningatanki Jóakims Aðalandar. Og maður hugsaði - jú einmitt - það var hárrétt - myndin endurspeglaði mjög vel ástandið á þessum stað: Þarna er ungur hraustur maður sem situr ofan á gullkistu og vælir yfir örlögum sínum. Ég spurði aftur vin minn - hvað verður um þetta? Ekki viss - jú mestallt er flutt til Evrópu þar sem þessum villta fiski er breytt í svín eða kjúkling eða lax - og enn aftur hugsaði maður - væri ekki hægt að skapa meiri verðmæti úr þessu? Og þegar maður stóð við sílóin, há eins og Hallgrímskirkjuturnar fullir af lífmassa úr hafinu, og hugsaði um sláturtertuna, fjallagrasagosið, skyrkonfektið og öll auðu húsin og allt fólkið í heiminum og allt unga fólkið í hönnunar- og verkfræði- og líffræðinámi þá var ekki annað hægt en að hugsa að möguleikarnir væru svo margir - að það væri fáránlegt að reyna svo mikið sem að telja þá upp.  

Og svo fór maður víðar og víðar og lengra í huganum og hugsaði um þrjú álver sem græða milljarða - af hverju eru ekki nemar og iðnhönnuðir í fastri vinnu, allt árið alltaf? Af hverju er þetta ekki árskúrs í verkfræðideildinni - að sitja í Straumsvík með hönnunarnema og hugsa. Milljarðar af verðmætum streyma hjá - af hverju streyma ekki fram reiðhjól og tannhjól og silfurgljáandi tanngómar, af hverju er það yfirleitt nokkur spurning að hér séu á landi séu möguleikar? Hvernig dettur nokkrum manni í hug að það sem skortir hér sé meiri framleiðsla á hráefnum? Meiri orka, meiri fiskur, meiri mjólk, meira kjöt, meira ál. Af hverju eru ekki heilu hæðirnar af fólki að hugsa um allt heita vatnið og allan fiskinn og allt roðið og öll beinin og vinna með öllum gömlu köllunum sem kunna að smíða en ekki að hanna og öll litlu fyrirtækin sem eru eins og lítill sveitabær og þurfa bara að hitta réttu manneskjuna í örlítinn tíma til að gera kraftaverk og og ..og og - já af hverju er ekki baðið ekki löngu orðið alveg barmafleytifullt! Sannleikurinn er sá að hér skortit ekkert nema að stefna saman rétta fólkinu á enn fleiri sviðum.