KVEIKJAN

Við litum á býlin sem lítil fyrirtæki út um land allt og sáum ótal tækifæri

STEFNUMÓT HÖNNUÐA OG BÆNDA

Stefnumót hönnuða og bænda er nýsköpunarverkefni Listaháskóla Íslands þar sem tveim starfsstéttum er teflt saman með það að markmiði að þróa matarafurðir í hæsta gæðaflokki þar sem hönnun og rekjanleiki eru höfð að leiðarljósi. Nýnæmi verkefnisins felst í því að tefla saman einni elstu starfsstétt landsins, bændum, og einni yngstu starfstétt landsins, vöruhönnuðum.

KVEIKJAN

Það var ýmislegt í tíðarandanum árið 2006 sem ýtti undir tilurð Stefnumóts hönnuða og bænda. Sigríður Sigurjónsdóttir, prófessor í vöruhönnun við Listaháskóla Íslands, fór þess á leit við Brynhildi Pálsdóttur og Guðfinnu Mjöll Magnúsdóttur, vöruhönnuði, að þróa 6 vikna námskeið í matarhönnun. Sigríður hafði lagt mikla áherslu á að tengja vöruhönnunarbrautina við innlenda framleiðslu til að efla meðvitund um mikilvægi hönnunar og tengja nemendur út í samfélagið. Brynhildur og Guðfinna höfðu einbeitt sér að því að vinna með staðbundin hráefni og höfðu lagt sérstaka áherslu á matarhönnun sem þá var að ryðja sér til rúms alþjóðlega. „Okkur fannst tækifærin fyrir vöruhönnuði á Íslandi liggja í matarhönnun; hér höfðum við nóg af hráefni sem vantaði alveg að skapa sérstöðu.“ Á þessum tíma hafði Andri Snær Magnason nýlega gefið út bókina Draumalandið þar sem hann gagnrýnir harðlega meðferð Íslendinga á náttúrunni. Einnig gagnrýnir hann íslenskan landbúnað fyrir að svara ekki kalli neytenda um staðbunda og góða matvöru og spyr „Af hverju slefar maður ekki hálfan hringinn í kringum landið?“. Vegna miðstýringar í landbúnaðarkerfinu hérlendis var ekki svigrúm fyrir bændur að vinna og framleiða vörur úr sínu hráefni sem gerði það að verkum að engin hefð skapaðist fyrir því að neytendur gætu keypt afurðir beint frá bónda. Þetta kerfi hafði líka þær afleiðingar að þekking og kunnátta bænda á heimaframleiðslu varð takmörkuð. Með aukinni ferðamensku og hugarfarsbreytingu hjá neytendum og bændum fór að kvikna sterkur áhugi fyrir afurðum beint frá bónda. Í kjölfarið voru samtökin Beint frá býli stofnuð 2008 til að hvetja bændur til að hefja heimavinnslu. Á svipuðum tíma var Nýtt Norrænt Eldhús að verða til á Norðurlöndunum, þar sem lögð er áhersla á að vinna með staðbundið norrænt hráefni. Gunnar Karl matreiðslumeistari á Dill var einn af frumkvöðlum Ný Norræns Eldhús hér á landi. Það voru því margir samverkandi þættir sem urðu kveikjan að Stefnumóti hönnuða og bænda.

Við litum á býlin sem lítil fyrirtæki út um land allt og sáum ótal tækifæri. Við sáum tækifæri til að skapa nýjar hefðir. Við vildum sjá matarafurðir byggðar á sérstöðu og góðri hönnun, okkur leiddist óöryggið og eftirlíkingarnar sem voru ríkjandi á markaði. Hér fannst okkur þörf á hönnuðum og við höfðum trú á því að við gætum sýnt fram á ný tækifæri í matvælaframleiðslu með aðkomu hönnunar. Það er vegna þessa sem Stefnumót hönnuða og bænda varð til.“ (S.S., G.M.M og B.P.)

Stefnumót hönnuða og bænda stóð yfir í fjögur ár, frá 2007 – 2011 og skiptist í tvo hluta; námskeið og rannsókn. Á þessum tíma var námskeiðið (hluti af BA námi í vöruhönnun) kennt þrisvar sinnum þar sem 30 nemendur og 11 býli víðs vegar af landinu tóku þátt. Árið 2008 fékk verkefnið styrk úr Tækniþróunarsjóði og Framleiðnisjóði Landbúnaðarins til að hefja rannsóknarhluta Stefnumóts hönnuða og bænda. Rannsóknarhlutinn var þverfagleg samvinna þar sem Matís var formlegur samstarfsaðili. Þetta gerði það kleift að fjórar hugmyndir úr námskeiðinu urðu að fullþróuðum afurðum.

Stefnumót hönnuða og bænda var alfarið unnið í þágu býlanna og var hugsað sem gjöf til bændasamfélagsins í þeirri von að það gæti verið fordæmisgefandi og skapað margföldunaráhrif út í samfélagið. Markmiðið með þessari síðu er að miðla þessu umfangsmikla verkefni svo að aðrir geti nýtt sér þá reynslu og þekkingu sem varð til á tímabilinu.